top of page
7.png
Samstæðustokkur_edited.png

Takk fyrir að sýna spilinu áhuga! Margir hafa spilað samstæðuspil sem eru til í ýmsum stærðum, gerðum og þemum. Þetta er okkar uppáhalds af augljósum ástæðum.

 

Í kassanum eru 33 spil, einn jóker (þar sem þið funduð hlekkinn inn á þessa síðu), tvö eintök af jólasveinunum 13, auk Grýlu, Leppalúða og jólakattarins.

Á öðru spilinu í samstæðunni er QR kóði sem hægt er að skanna og lesa það sem vitað er um hvern jólasvein fyrir sig. Lista yfir alla jólasveinana má finna HÉR.

Hægt er að nýta spilin í fleira en að spila með þeim, t.d. hengja þau upp. Strengið band yfir stofuna (eða annars staðar) og bætið við nýju spjaldi eftir því sem jólasveinarnir koma til byggða, eða þá að byrja með þá alla og taka jólasveininn sem kom um nóttina, af bandinu. Það er þá eins og niðurtalning til jóla. Aftur að spilinu.

 

Í leiðbeiningunum er gert ráð fyrir tveimur leikmönnum en auðvitað geta fleiri spilað samtímis.

 

Hefðbundinn leikur

Leggið spilin á grúfu í röð, t.d. 5x6 og tvö spil á endanum. Ágætt er að hafa þann háttinn á að yngsti leikmaðurinn byrji. Sá snýr tveimur spilum við svo allir sjái. Ef um samstæðu er að ræða fær leikmaðurinn slag, tekur spilin og gerir aftur. Ef spilin eru ekki samstæð er spilunum snúið við og sá næsti gerir. Sá vinnur sem nær flestum slögum.

 

Aðrar útgáfur samstæðuspilsins

Nafnið fyrst

Þú nefnir jólasvein og mótherjinn nefnir annan jólasvein. Nú hefst spilið en til þess að mega byrja að safna pörum þarftu fyrst að finna samstæðu þíns jólasveins. Þegar þú hefur fundið samstæðuna er fyrsta parið fundið og þú leitar að öðrum samstæðum. Ef þú finnur þitt par og finnur svo par mótherjans er leiknum lokið því mótherjinn getur ekki fundið spjöld sem þú hefur þegar tekið.

 

Á laun

Hægt er að spila eftir hefðbundnum reglum en í stað þess að sýna mótherjanum spilin tvö sem þú snýrð við, sérð þú aðeins spilin. Það sama gildir um mótherjann sem sýnir þér ekki spilin sín.

​Jólasveinaröðin

Hægt er að spila spilið í jólasveinaröðinni. Fyrst á að finna Stekkjastaur, svo Giljagaur og svo Stúf. Í lokin hefst leitin að Grýlu, Leppalúða og loks jólakettinum.

 

Ertu með aðra útfærslu að leik eða vantar upplýsingar í leiðbeiningarnar? Láttu okkur vita!

bottom of page