top of page

Giljagaur

Kemur 11 dögum fyrir jól

Giljagaur er annar til byggða og kemur aðfaranótt 13. desember. Hann fer aftur heim 26. desember.

giljagaur

Giljagaur er annar til byggða og kemur aðfaranótt 13. desember. Hann faldi sig í fjósinu þegar verið var að mjólka en þegar enginn var á ferli, stökk hann fram og borðaði froðuna sem myndaðist ofan á mjólkurfötunum. Nú til dags eru eflaust flestir hættir að mjólka í fötur og við vitum ekki hvernig hann fer að í tæknivæddum fjósum nútímans. Til eru sögur um jólasvein sem hét Froðusleikir en líklega er það sami jólasveinn.


í Grýlukvæði frá 18. öld er Giljagaur ekki kallaður jólasveinn heldur er sagður vera bróðir Grýlu. Við hunsum þá tilgátu og köllum hann áfram jólasvein.


Í Jólasveinavísu Jóhannesar úr Kötlum sem birtist fyrst í ljóðabókinni Jólin koma árið 1932 lýsir hann Giljagaur svona:


Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
– Hann skreið ofan úr gili
og skauzt í fjósið inn.


Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.

Veist þú meira um Giljagaur? Láttu okkur vita.

bottom of page