Jólakötturinn
Jólakötturinn kemur til byggða rétt fyrir jól en alltaf á nóttunni og stafar ekki hætta af honum. Aðeins örfáir hafa séð hann.
Jólakötturinn er nýjasti fjölskyldumeðlimur jólasveinanna en hefur tilheyrt fjölskyldunni lengi. Hann kemur til sögunnar á 19. öld og er margt á huldu um uppruna hans. Það er þó sitthvað sem við vitum um þetta einkennilega og dularfulla gæludýr, annað en að vera risastór og er sagður éta alla þá sem ekki fá ný föt fyrir jólin. Það fólk „fer í jólaköttinn" sem þýðir að jólakötturinn éti þau. Þó eru engin dæmi um það að jólakötturinn hafi einhvern tímann étið nokkurn. Mögulega er hann bara farinn að éta fóður eins og aðrir kettir. Einnig eru frásagnir um það að jólakötturinn éti matinn frá börnunum og jafnvel fullorðnum líka. Að fara í jólaköttinn er sambærilegt orðatiltækinu „að fara í hundana“ en það merkir að sólunda lífi sínu eða eyðileggja framtíð sína. Ástæða þess að áhersla var lögð á að eignast ný föt gæti jafnvel tengst baðferðum sem voru ekki mjög tíðar, stundum á laugardögum en svo alltaf fyrir jól. Fólk fór svo í nýju og hreinu fötin eftir jólabaðið.
Víða í Evrópu er samskonar skepna á ferli, með svipaða eiginleika og áherslur. Hægt er að færa rök fyrir því að jólakötturinn tákni hinn illa, Djöfulinn, með tengingu í púkann sem fylgdi heilögum Nikulási, fyrirmynd jólasveinsins. Í Evrópu var til fyrirbæri sem kallaðist Djöflaköttur og er hinn íslenski jólaköttur mögulega sama vera eða á a.m.k. ættir sínar að rekja til sama forföður, púkans sem fylgdi Nikulási. Við ætlum þó ekki að fara dýpra í þá sálma hér. Norræni jólahafurinn (IKEA geitin) er líklega þekktasti ættingi jólakattarins en jólahafurinn hefur sömu eiginleika og kötturinn okkar. Hann fylgist með jólaundirbúningi landsmanna og refsar þeim sem bregðast.
Jón Árnason safnaði íslenskum þjóðsögum en í öðru bindi hans segir hann nokkur orð um jólaköttinn:
Þó gátu menn ekki notið jólagleðinnar með öllu áhyggjulausir því auk jólasveinanna var það trú að óvættur væri á ferð sem kallaður væri jólaköttur. Hann gerði reyndar engum þeim mein sem eignuðust einhverja nýja flík að fara í á aðfangadagskvöldið, en hinir sem ekkert nýtt fat fengu „fóru allir í jólaköttinn“ svo hann tók þá eða að minnsta kosti jólarefinn þeirra og þótti þá góðu fyrir goldið ef kötturinn gerði sig ánægðan með hann.
Í Jólasveinavísu Jóhannesar úr Kötlum sem birtist fyrst í ljóðabókinni Jólin koma árið 1932 lýsir hann jólakettinum svona:
Þið kannist við jólaköttinn,
– sá köttur var gríðarstór.
Fólk vissi ekki hvaðan hann kom
eða hvert hann fór.
Hann glennti upp glyrnurnar sínar,
glóandi báðar tvær.
– Það var ekki heiglum hent
að horfa í þær.
Kamparnir beittir sem broddar,
upp úr bakinu kryppa há,
– og klærnar á loðinni löpp
var ljótt að sjá.
Hann veifaði stélinu sterka,
hann stökk og hann klóraði og blés,
– og var ýmist uppi í dal
eða úti um nes.
Hann sveimaði, soltinn og grimmur,
í sárköldum jólasnæ,
og vakti í hjörtunum hroll
á hverjum bæ.
Ef mjálmað var aumlega úti
var ólukkan samstundir vís
Allir vissu´, að hann veiddi menn
en vildi ekki mýs.
Hann lagðist á fátæka fólkið,
sem fékk enga nýja spjör
fyrir jólin – og baslaði og bjó
við bágust kjör.
Frá því tók hann ætíð í einu
allan þess jólamat,
og át það svo oftast nær sjálft,
ef hann gat.
Þvi var það að konurnar kepptust
við kamba og vefstól og rokk,
og prjónuðu litfagran lepp
eða lítinn sokk.
Því kötturinn mátti ekki koma
og krækja í börnin smá
– Þau urðu að fá sína flík
þeim fullorðnu hjá.
Og er kveikt var á jólakvöldið
og kötturinn gægðist inn,
stóðu börnin bísperrt og rjóð,
með böggulinn sinn.
Sum höfðu fengið svuntu
og sum höfðu fengið skó,
eða eitthvað, sem þótti þarft,
– en það var nóg.
Því kisa mátti engan eta,
sem einhverja flíkina hlaut. –
Hún hvæsti þá heldur ljót
og hljóp á braut.
Hvort enn er hún til veit ég ekki,
– en aum yrði hennar för,
ef allir eignuðust næst
einhverja spjör.
Þið hafið nú kannski í huga
að hjálpa, ef þörf verður á.
– Máske enn finnist einhver börn
sem ekkert fá.
Máske, að leitin að þeim sem líða
af ljós-skorti heims um ból,
gefi ykkur góðan dag
og gleðileg jól.
Veist þú meira um jólaköttinn? Láttu okkur vita.