top of page

Kertasníkir

Kemur á aðfangadag

Kertasníkir er síðastur til byggða og kemur aðfaranótt 24. desember. Hann fer aftur heim á þrettándanum, 6. janúar.

kertasnikir

Kertasníkir stal kertum af heimilum en hann kveikti ekki á þeim, hann borðaði þau. Í gamla daga var hann stundum kallaður Kertasleikir.


Kertin sem hann borðaði voru töluvert frábrugðin vaxkertunum sem við þekkjum í dag. Þetta voru tólgarkerti. Tólg er hörð fita sem kemur úr sauðfé og nautgripum. Tólgarkerti voru dýr í framleiðslu og voru aðeins notuð til hátíðarbrigða á heimilum en reglulega í guðsþjónustum, sem þó voru hátíðlegar og borin mikil virðing fyrir. Þá var hefð fyrir því að allir á heimilinu fengu tólgarkerti á aðfangadagskvöld og var mikil hátíð þegar kveikt var á öllum kertunum vegna allrar birtunnar. Lýsislampar og grútarkolur var alla jafna notað en gaf mikið minni birtu. Tólgarkerti eru sjaldgæf í dag því þau lykta ekki mjög vel, þau eru langt frá því að vera ilmkerti. Tólg er notuð við matargerð í dag, bæði til að steikja upp úr, t.d. kleinur en tólg er líka sett út á fisk og kannast margir við hamsatólg. Talið er að fólk hafi farið að búa tólgarkertin til á 15. öld en þar á undan notaði fólk kolur og íhvolf bein. Mör og lýsi var þá notað sem eldsmaturinn. Mör er fitan sem umlykur innyfli dýra en enn þann dag í dag er mör notaður í matargerð, m.a. í lifrarpylsu og hamsatólg.


MMR hefur gert árlegar kannanir frá árinu 2015 á vinsældum jólasveinanna. Allt til ársins 2020 var Kertasníkir valinn vinsælastur jólasveinanna en árið 2021 beið hann lægri hlut fyrir Stúfi sem hlaut 30% atkvæða á móti 28% sem völdu Kertasníki.


Í Jólasveinavísu Jóhannesar úr Kötlum sem birtist fyrst í ljóðabókinni Jólin koma árið 1932 lýsir hann Kertasníki svona:


Þrettándi var Kertasníkir,

-þá var tíðin köld,

ef ekki kom hann síðastur

á aðfangadagskvöld.


Hann elti litlu börnin,

sem brostu glöð og fín,

og trítluðu um bæinn

með tólgarkertin sín.

Veist þú meira um Kertasníki? Láttu okkur vita.

bottom of page