top of page

Leppalúði

Leppalúði sést sjaldan en þó er ekki útilokað að sjá hann á ferli með fjölskyldunni.

leppaludi

Leppalúði er þriðji eiginmaður Grýlu og kynntist henni á 17. öld. Hann er latur og hefur það helsta hlutverk að bíða heima í hellinum eftir að Grýla komi heim og færi honum mat. Þjóðsögur segja hann stundum veiða bæði menn og börn en jólasveinarnir minnast þess ekki. Í þjóðsögum frá 19. öld er gefið í skyn að Leppalúði sé faðir jólasveinanna, eldri heimildir segja þó að Grýla hafi átt þá í fyrri hjónaböndum. Þó er ekki ólíklegt að Leppalúði og Grýla eigi einhver börn saman en hver þau eru veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Leppalúði gæti verið faðir um 20 af þeim u.þ.b. 80 börnum sem Grýla á.


Eitt sinn veiktist Grýla og lá veik í heilt ár. Leppalúði var til fárra hluta nytsamlegur og þau brugðu því á það ráð að ráða vinnustúlku á heimilið. Hún hét Lúpa. Ekki leið á löngu þar til hún varð ólétt og eignaðist hún soninn Skrögg með Leppalúða. Grýla varð snælduvitlaus þegar hún komst loks á lappir og komst að þessu. Hún rak Lúpu og Skrögg af heimilinu. Leppalúði gaf þeim þá eyju þar sem þau héldu til þar til Lúpa lést en þá var Skröggur 12 ára. Hann leitaði þá til Álfheima og eignaðist 22 börn með Skjóðu sem var dóttir konungs en þau létust öll.


Flest jólasveinanöfnin gefa til kynna hvaða eiginleika þeir bræður hafa. Ef við ráðum í nafn Leppalúða er ljóst að hans hlutskipti er ekki merkilegt. Leppur getur þýtt tuska, léleg flík eða jafnvel drusla. Lúði kemur mögulega af fiskinum lúðu en getur einnig þýtt lúðalegur, larfalegur eða illa klæddur.


í bókinni Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur sem gefin var út 1898−1903 má finna ljóð um Leppalúða:


1. Hér er kominn hann Leppalúði
leiðinlega stór.
Einn var eg staddur
innar í kór.


2. Einn var eg staddur,
og þá kom hann þar,
kafloðinn belginn
á bakinu bar.


3. Með kafloðinn belginn
kom hann þá hér.
Það var hans hið fyrsta
hann heilsaði mér.


4. Það var hans hið fyrsta
hann beiddi mig um barn.
„Þú átt að vera mér
svo gustukagjarn.


5. Þú átt að gjöra
það gustukaverk.
Varla‘ er þér það vorkennandi
velmenntuðum klerk.


6. Varla‘ er þér vorkennandi,
að veita mér þá bæn.
Gefðu mér hana Ólöfu.
Ekki‘ er hún svo væn.


7. Gefðu mér hana Ólöfu
í gráa belginn minn.
Ekki et eg meira
einsamall um sinn.


8. Ekki et eg meira,
og er það nógu frekt.“
Þá hló hann Leppalúði,
og það var skrítilegt.


9. Þá hló hann Leppalúði,
og þá hræddist eg.
Grettist hann allur
grimmilega með.


10. Grettist hann allur
og gjörði svo að tjá:
„Ekki‘ ætla‘ eg að snópa hér,
allt í frá.


11. Ekki‘ ætla eg að snópa hér,
þú eyðir frá mér;
Tíundina á eg,
að taka hjá þér.


12. „Tíundina áttu‘ ekki,“
talaði hinn það.
„Hafa máttu heldur
hundana í spað.


13. Hafa máttu heldur,
hvað sem þú vilt.
Gefa skal eg þér Björn litla,
geðugan pilt.


14. Gefa skal eg þér Björn litla,
gott áttu þá.“
Ærðist hann Leppalúði
og ólmaðist þá.


15. Ærðist hann Leppalúði.
Eg fór þá á burt;
aldrei hefi‘ eg litið
argari furt.


16. Aldrei hefi‘ eg hræddari
orðið en þá;
elti hann mig leingi,
Og ætlaði mér að ná.


17. Elti hann mig leingi,
mér óttaði það mest;
komst eg í kirkjuna
og kallaði‘ í prest.


18. Komst eg í kirkjuna,
og kom hann þá inn;
kallaði prestur
í kórdjákna sinn.


19. Kallaði prestur:
„Komdu nú hér.
Hríngdu nú Gísli minn,
Og hraðaðu þér.“


20. Hringdi‘ hann þá Gísli,
eg heyrði það sagt.
Hljóp hann inn í Búrfell
Með höfuðið skakt.

Veist þú meira um Leppalúða? Láttu okkur vita.

bottom of page