top of page

Stekkjastaur

Kemur 12 dögum fyrir jól

Stekkjastaur er fyrstur jólasveinanna til byggða og kemur aðfaranótt 12. desember (skórinn fer út í glugga að kvöldi 11. desember). Hann fer aftur heim 25. desember.

stekkjastaur

Stekkjastaur drakk mjólk úr kindum en þar sem hann hafði staurfætur gerði það honum erfitt fyrir. Það hefði eflaust verið gaman að fylgjast með honum reyna. Ef hann varð var við heimilisfólk þurfti hann að hafa hraðann á og fela sig. Hann stóð þá eins og staur í stekknum, þaðan sem hann dregur nafn sitt. Stekkur er gamalt, íslenskt orð og merkir girðing eða fjárrétt sem notuð var til að mjólka kindur á vorin.


í Grýlukvæði frá 18. öld er Stekkjastaur ekki kallaður jólasveinn heldur er sagður vera einn af hyski Grýlu. Hyski er gamalt orð yfir fjölskyldu eða heimilisfólk en við vitum ekki hvernig hann á að vera tengdur Grýlu.  Sem dæmi á Giljagaur að hafa verið bróðir Grýlu samkvæmt kvæðinu. Við leyfum okkur að hafna þessari tilgátu og verða þeir því bara jólasveinar áfram.


Í Jólasveinavísu Jóhannesar úr Kötlum sem birtist fyrst í ljóðabókinni Jólin koma árið 1932 lýsir hann Stekkjastaur svona:


Stekkjastaur kom fyrstur, 
stinnur eins og tré. 
Hann laumaðist í fjárhúsin 
og lék á bóndans fé. 

Hann vildi sjúga ærnar, 
-þá varð þeim ekki um sel, 
því greyið hafði staurfætur, 
-það gekk nú ekki vel.

Veist þú meira um Stekkjastaur? Láttu okkur vita.

bottom of page