Stúfur
Kemur 10 dögum fyrir jól
Stúfur er þriðji til byggða og kemur aðfaranótt 14. desember. Hann fer aftur heim 27. desember.
Stúfur er, eins og nafnið gefur til kynna, minnstur jólasveinanna. Hann leitar að illa þrifnum pönnum og skrapar agnirnar sem brunnu fastar. Í gömlum heimildum ber Stúfur einnig nöfnin Pönnusleikir og Pönnuskuggi. Hann er því fyrstur fjögurra bræðra sem borða af eða úr eldhúsáhöldum og koma hinir í kjölfarið, það eru Þvörusleikir, Pottaskefill og loks Askasleikir.
Stúfur er að margra mati vinsælasti jólasveinninn en lýtur oft í lægra haldi fyrir Kertasníki sem kemur síðastur til byggða. MMR hefur gert árlegar kannanir frá árinu 2015 á vinsældum jólasveinanna. Allt til ársins 2020 var Kertasníkir vinsælastur en árið 2021 mældist Stúfur vinsælastur jólasveinanna þegar 30% völdu Stúf en 28% Kertasníki.
Í Jólasveinavísu Jóhannesar úr Kötlum sem birtist fyrst í ljóðabókinni Jólin koma árið 1932 lýsir hann Stúfi svona:
Stúfur hét sá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.
Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.
Veist þú meira um Stúf? Láttu okkur vita.