Þvörusleikir
Kemur 9 dögum fyrir jól
Þvörusleikir er fjórði til byggða og kemur aðfaranótt 15. desember. Hann fer aftur heim 28. desember.

Þvörusleikir er grannur og spengilegur. Hann er kenndur við þvöru en þvara er stór sleif sem var notuð til að hræra í stórum pottum en þær eru ekki mjög algengar í dag. Þvara var orð yfir árar í bát, svo stór er þvaran. Þvörur voru þó ekki notaðar mjög oft, aðeins til að hræra í mjög stórum pottum. Þaðan kemur orðatiltækið „að standa eins og þvara“, þ.e. að standa og gera ekki neitt eins og þvörur gerðu flesta daga. Á 20. öld varð Þvörusleikir að láta sér sleifar nægja en allra síðustu ár hefur hann átt erfitt þar sem margar sleifar eru úr plasti og því sitja matarleifar í minna mæli eftir á sleifinni. Það gæti skýrt hvers vegna hann er svona slánalegur.
Í Jólasveinavísu Jóhannesar úr Kötlum sem birtist fyrst í ljóðabókinni Jólin koma árið 1932 lýsir hann Þvörusleiki svona:
Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.
Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.
Veist þú meira um Þvörusleiki? Láttu okkur vita.